Réttarefnafræðilegar rannsóknir í þágu lögreglu og dómsyfirvalda

Réttarefnafræðilegar rannsóknir í þágu lögreglu og dómsyfirvalda eru stór þáttur starfsemi rannsóknastofunar. Helstu rannsóknir eru:

  • Rannsóknir á blóð- og þvagsýnum vegna gruns um saknæmt athæfi
    • Alkóhólmælingar
    • Ólögleg ávana- og fíkniefni
    • Lyf bæði með og án ólöglegra fíkniefna eða alkóhóls
  • Rannsóknir á sýnum úr réttarkrufningum
  • Rannsóknir á ávana- og fíkniefnasýnum sem lögregla eða tollayfirvöld hafa lagt hendur á
  • Styrkleikarannsóknir á ólöglegu áfengi (landa og gambra)
  • Rannsóknir á brunasýnum

Rannsóknir á sýnum frá lögreglu

Samkvæmt umferðarlögum nr. 50/1987 með síðari breytingum frá 2006 er óheimilt að aka undir áhrifum ávana- og fíkniefna, sem óheimil eru á íslensku forráðasvæði. Fram að þeim tíma var óheimilt að aka undir áhrifum áfengis. Í kjölfar þess að bann var sett við akstri undir áhrifum ávana- og fíkniefna breyttist samsetning akstursmála allverulega.

Breyting á akstursmálum 2006
Mynd 1. Breyting á samsetningu akstursmála við breytingu á umferðarlögum.

 

Undanfarin ár hafa flest mál, sem komið hafa til rannsóknar, verið vegna meintra umferðarlagabrota. Akstursmálum er skipt í þrjá meginflokka sem eru:

  • Akstur og alkóhól
  • Akstur og ólögleg fíkniefni
  • Asktur undir árhifum lyfja bæði með og án ólöglegra fíkniefna eða alkóhóls

Á mynd 2 sést vel hvernig samsetning þessa málaflokks hefur breyst. Á árinu 2018 varð mikil aukning á akstri undir áhrifum slævandi lyfja í flokki róandi-, svefn- og sterkra verkjalyfja og var sá akstursmálaflokkur orðinn algengastur árið 2020.

Samsetning akstursmála 2015 til 2021
Mynd 2. Sýnir málafjölda og flokkun akstursmála á árunum 2015-2021

Í ýmsum öðrum lífsýnamálum frá lögreglu getur reynst nauðsynlegt að afla upplýsinga um hvort hlutaðeigandi hafi verið undir áhrifum áfengis, lyfja eða ávana- og fíkniefna þegar brot var framið.

Á mynd 3 má sjá fjölda og skiptingu réttarefnafræðilega mál á árunum 2005 til 2021.

Samsetning réttarefnafræðilegra mála 2005 til 2021
Mynd 3. Sýnir fjölda og skiptingu réttarefnafræðilegra mála á árunum 2005-2021.

 

Á Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði (RLE) hefur etanól í blóði verið ákvarðað með gasgreiningu frá því þær mælingar hófust árið 1972. Mæliaðferðin skilur vel á milli mismunandi alkóhóla og fleiri rokgjarnra efna.

Gerðar eru tvær óháðar blandanir á alkóhólblóðsýnum til að koma í veg fyrir sýnarugling. Etanól er greint með tveimur mismunandi gasgreiningarsúlum sem gefa tvær óháðar niðurstöður fyrir hverja sýnablöndun. Lokaniðurstaða sú, sem gefin er upp á vottorði, er meðaltal fyrir báðar blandanirnar að frádregnum vikmörkum.

Öll blóðsýni sem rannsökuð eru á RLE er geymd í allt að tvö ár. Rísi deila um ákvörðunina má alltaf endurtaka mælinguna og staðfesta þannig fyrri mælingu.

Geymsluþolsrannsóknir á blóðsýnum sýna fram á að gott samræmi er milli tveggja ákvarðana. Mismunur milli mælinga er innan nákvæmnismarka aðferðarinnar, þótt allt að 11 mánuðir líði milli þeirra.

Við réttarkrufningar tekur réttarlæknir sýni úr líffærum hins látna þegar hann telur þörf á að leitað sé að lyfjum, ávana- og fíkniefnum eða eiturefnum.

Þetta er einkum gert ef grunur leikur á að eitrun hafi átt þátt í dauða hins látna. Enn fremur eru dauðsföll af ýmsum öðrum toga (s.s. sjálfsvíg og slys) tekin til réttarefnafræðilegrar rannsóknar, þegar hugsanlegt er talið, að tilvist áfengis, lyfja eða annarra efna geti veitt nánari skýringu á aðdraganda þeirra.

1 Tafla. Misnotuð lyf og efni fundin í blóði einstaklinga sem létust úr eitrunum á árunum 2018 til og með 2022

Efni í blóði látinna 2018 til 2022

 

2. Tafla. Heildarfjöldi réttarkrufninga, þar af vegna eitrana, lyfja og áfengis, ólöglegra ávana- og fíkniefna og annarra efna.

Fjöldi réttarkrufninga og eitrana 2015 til 2022

 

Á hverju ári koma til rannsóknar fjölmörg sýni af ávana- og fíkniefnum, sem lögreglu- og tollayfirvöld hafa lagt hald á.  Með ávana- og fíkniefnum er hér fyrst og fremst átt við efni, sem óheimil eru á íslensku yfirráðasvæði, sbr. 2. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og reglugerð nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni með síðari breytingum.

Einnig hafa komið til rannsóknar ýmis önnur efni, svo sem vefaukandi sterar, fæðubótarefni og fleira. Mynd 1 sýnir fjölda efnissýna eftir ári. Mynd 2 sýnir fjölda í hverjum sýnaflokki efnissýna eftir ári. Flokkarnir eru amfetamín, kókaín, THC og annað. Mynd 3 sýnir fjölda kannabissýna eftir ári. 

Sýnafjöldi Efnissýnadeildar 2001-2020
Mynd 1. Fjöldi sýna eftir ári á tímabilinu 2001-2020
Sýnafjöldi Efnissýnadeildar eftir málaflokkum 2001-2020
Mynd 2. Fjöldi í sýnaflokki efnissýna eftir ári á tímabilinu 2001-2020

 

Fjöldi kannabisýna hjá Efnissýnadeild 2001-2020
Mynd 3. Fjöldi kannabissýna eftir ári á tímabilinu 2001-2020