Handhverfugreining amfetamíns

Hvað er amfetamín og hvað er átt við með handhverfugreiningu? 

Amfetamín er örvandi efni sem flokkast til fenetýlamína og verkar á miðtaugakerfið. Á Íslandi er amfetamín notað í læknisfræðilegum tilgangi við ADHD (t.d. Attentin®, Elvanse® og Volidax®) en einnig er algengt að amfetamín sé misnotað. Amfetamínsameindin inniheldur svokallað hendið kolefni, sem er stjörnumerkt á mynd 1, sem veldur því að tvær byggingar efnisins eru til. Þessar byggingar eru handhverfur og kallast levoamfetamín (l-amfetamín) og dexamfetamín (d-amfetamín). Á einfaldan hátt má segja að l- og d- amfetamínsameindirnar séu með nákvæmlega sömu efnaformúlu, efnatengi og massa en það sem aðgreinir þær er ólík þrívíddarbygging. L- og d- amfetamín eru í raun spegilmynd hvor af annarri, ekki ósvipað vinstri og hægri hönd okkar manna. Handhverfugreining er því sértæk aðferð sem greinir á milli d- og l- amfetamíns í sýnum.

Amfetamin handhverfur

Mynd 1. Samanburður á byggingu dexamfetamíns og levoamfetamíns. Handhverfa kolefnið er stjörnumerkt og eru byggingarnar spegilmyndir af hvor annari.  

 

Af hverju er handhverfugreiningin framkvæmd? 

Þar sem d- og l- amfetamín hafa sömu efnaformúlu og efnahópa, gefa því báðar amfetamínsameindirnar jákvætt svar á skimunarprófi í þvagi og munnvatni. Hefðbundnar magngreiningaraðferðir og þar með magngreining rannsóknastofunnar gera ekki greinarmun á milli handhverfa amfetamíns. Handhverfur amfetamíns haldast óbreyttar í líkamanum eftir inntöku og handhverfugreining gefur því mikilvægar upplýsingar um hverskonar amfetamín var innbyrt. 
Við helstu framleiðsluaðferðir ólöglegs amfetamíns myndast bæði l- og d-amfetamín í u.þ.b. jöfnum hlutföllum, ólíkt lyfjunum Attentin®,  Elvanse® og Volidax® sem eru markaðssett á Íslandi og innihalda amfetamín sem virkt efni. Attentin® er dexamfetamín súlfat og inniheldur aðeins d-amfetamín. Elvanse® og Volidax® eru forlyf, sem breytast í d-amfetamín í líkamanum.  

 

Hvernig er handhverfugreiningin framkvæmd? 

Með sérstakri greiningarsúlu er hægt að aðgreina þessar handhverfur.  Rástími handhverfanna er mismunandi þar sem  l-amfetamín kemur af súlunni  á undan d-amfetamíni og því aðgreinanlegt hvaða handhverfur eru í sýninu  og í hvaða hlutföllum, eins og sést á mynd 2.  

Levoamfetamin og dexamfetamin toppar
Dexamfetamin toppur

 

Mynd 2. Dæmi um lífsýni sem innihalda blöndu af l- og d-amfetamíni (A) og eingöngu d-amfetamín (B). Lífsýnin hafa verið úrhlutuð og aðgreind með sérstakri aðgreiningarsúlu og greind á tvöföldum massagreini.

Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði (RLE) framkvæmir handhverfugreiningu að beiðni lögreglunnar eða ríkissaksóknara í allt að tvö ár frá því að mál  berst til RLE.