Byrlanir

Ráðleggingar Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði varðandi leit að lyfjum og eiturlyfjum þar sem grunur er um byrlun.

 

Sýnataka

Mikilvægt að taka bæði blóð- og þvagsýni

Rannsóknir hafa sýnt að flest umrædd lyf eru stöðug í blóði og þvagi í ísskáp í a.mk. 48 klst, sýnin eiga því að geymast í ísskáp strax að sýnatöku lokinni og fram að greiningu.

Sum lyfin hafa mjög stuttan viðverutíma í fólki, svo að það er áríðandi að sem stystur tími sé liðinn frá ætlaðri byrlun að sýnatöku. Mikilvægt er að taka einnig þvagsýni, því efnin greinast oft lengur í þvagi.

Blóðsýnið þarf að vera rot- og storkuvarið.

 

Lyfin

Greiningartími lyfja er háður þeim skammti sem upphaflega var innbyrtur, auk brotthvarfshraða efnanna. Komi áfengisneysla við sögu, eins og algengt er, má gera ráð fyrir að lægri skammt þurfi af flestum hugbreytandi efnum til að ná tilætluðum áhrifum.

Þar sem oftast er um að ræða einstaka notkun lyfs, má einnig gera ráð fyrir að greiningartíminn sé styttri, en þegar um er að
ræða endurtekna notkun. Brotthvarfshraði lyfja er hægari í eldra fólki en yngra.

Þau lyf sem gætu helst komið til greina og áætluð tímamörk efnagreininga eru eftirfarandi:

  1. Gammahydroxybutyric sýra (GHB), hefur hugbreytandi og slævandi áhrif, er horfin úr blóði < 8 klst. og þvagi < 12 klst ( < merkir innan við eða minna en).
  2. Benzódíazepín lyf eru hugbreytandi lyf, sem hafa róandi (slævandi) áhrif.
    a. ​​​​​​Flúnítrazepam (Rohypnol), er horfið úr blóði < 24 klst og þvagi < 72 klst.
    b. Alprazolam, oxazepam, lórazepam og temazepam eru horfin úr blóði og þvagi eftir u.þ.b. 24-48 klst.
    c. Diazepam, klórdiazepoxíð, klónazepam, nítrazepam og flúrazepam hafa langan helmingunartíma í blóði og má gera ráð fyrir að finna þau í blóði í allt að 48 klst og jafnvel lengur.
     
      Greining benzódíazepín lyfja í þvagi er oft erfið vegna fjölda umbrotsefna sem eru þar í litlum styrk. Reikna má með svipuðum greiningartíma og í blóði.
     
     
  3. Ketamín (svæfingalyf) er horfið úr blóði < 12 klst, úr þvagi < 24 klst
  4. Zolpidem og zopíklón (svefnlyf) eru horfin úr blóði < 12 klst, en þvagi < 24 – 36 klst.
  5. MDMA (ecstasy) er horfið úr blóði á 12-24 klst, en þvagi á 24-48 klst
  6. Alkóhól: Greina má alkóhól í þvagi í allt að 12 - 24 klst eftir að neyslu lauk.