Brunasýni

Sýnataka og meðferð sýna

  • Komið sýnum fyrir í loftþéttum ílátum eins fljótt og hægt er til að hindra tap á rokgjörnum efnum. Hægt er að nota málmdósir, glerkrukkur eða poka sem sérstaklega eru ætlaðir fyrir brunasýni. Mikilvægt er að loka ílátinu vel þannig að það sé alveg loftþétt.
     
  • Hæfileg stærð á íláti er á bilinu 0,2 – 5 lítrar. Hámarks lengd á sýni er 35 -40 cm. Hafið frekar meira en minna í hverju íláti þar sem nægjanlegt magn af sýni getur verið forsenda þess að hægt sé að greina leifar efna sem eru til staðar í litlu magni.
     
  • Árangursríkast er að taka sýni af gljúpum hlutum sem drekka í sig vökva (t.d. gólfteppi og undirlag á gólfi, tau, pappír eða jarðvegur) og geta þannig haldið eftir leifum af eldfimum vökvum þrátt fyrir að vatn hafi flætt yfir.
     
  • Ef um er að ræða hluti sem geta af eðlilegum ástæðum innihaldið mikið af lífrænum efnum, t.d. mjúkur viður eða nýleg gólfefni sem rokfim efni hafa ekki náð að veðrast úr (lím, lakk o.fl.), getur einfaldað rannsóknina að taka samanburðarsýni af sams konar efni en frá öðrum stað á vettvangi þar sem ekki er grunur um að íkveikiefni séu til staðar. Þannig er hægt að skoða hvaða efni eru náttúrulega í sýninu og hver eru framandi.