Header Paragraph

Tvö græn skref

Image
""

Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands (RLE) fékk nýverið viðurkenningu frá Umhverfisstofnun fyrir að hafa tekið tvö fyrstu Grænu skrefin í ríkisrekstri sem miða m.a. að því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi ríkisins. Fram kemur á vef Grænna skrefa að starfsfólk RLE hafi staðið sig afar vel í umhverfisstarfi en það megi m.a. þakka því að þar á bæ sé fólk vant að vinna að öryggismálum og fylgja gæðastöðlum af ýmsu tagi. Umhverfis- og öryggismál eigi ýmislegt sameiginlegt en hvort tveggja snúist um gott verklag, góða stefnu og gott utanumhald.

Grænu skrefin eru fimm og við innleiðingu þeirra hjá stofnunum ríkisins er tekið mið af gátlistum sem þarf að uppfylla. Veittar eru viðurkenningar fyrir hvert grænt skref að undangenginni úttekt á vegum Umhverfisstofnunar. RLE bætist í hóp þeirra starfsstöðva skólans sem stíga skref í átt að umhverfisvænni rekstri sjá nánar á  vef háskólans hér.

Hjá RLE stefnir fólk enn hærra, þ.e. á ISO-umhverfisvottun en þess má geta að fimmta Græna skrefið er í raun léttari útgáfa af því gæðakerfi.

Ásdís Elva Aðalsteinsdóttir, skrifstofustjóri Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði (til hægri), og Sólveig Sif Halldórsdóttir, náttúrufræðingur við stofuna, glaðbeittar með viðurkenninguna frá Umhverfisstofnun.
Ásdís Elva Aðalsteinsdóttir, skrifstofustjóri Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði (til hægri), og Sólveig Sif Halldórsdóttir, náttúrufræðingur við stofuna, glaðbeittar með viðurkenninguna frá Umhverfisstofnun.