Header Paragraph

Kristín Magnúsdóttir fær viðurkenningu frá HÍ

Image
Kristín Magnúsdóttir tekur við viðurkenningu frá Jóni Atla Benediktssyni rektor HÍ

Kristín Magnúsdóttir, deildarstjóri Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Læknadeild á Heilbrigðisvísindasviði, hlaut 2. desember 2021 viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til stjórnsýslu og stoðþjónusu.

Kristín lauk prófi í lyfjafræði frá Háskóla Íslands árið 1974 og hóf störf á Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði (RLE) árið eftir.

Hún er einn af frumkvöðlum í réttarefnafræðilegum rannsóknum á Íslandi og hefur verið virkur þátttakandi í starfi og uppbyggingu stofnunarinnar frá upphafi, en þar fara fram greiningar á ávana- og fíkniefnum, lyfjum og eiturefnum sem þurfa m.a. að standast strangar kröfur um áreiðanleika fyrir dómstólum. 

Innan RLE hefur byggst upp mikil reynsla og þekking á réttarefnafræði fyrir lögreglu og dómsyfirvöld og þar hefur Kristín verið lykilstarfsmaður áratugum saman.

Kristín er jafnframt helsti starfandi sérfræðingur Íslands í rannsóknum á ölvunarakstri, bæði hvað varðar uppsetningu og þróun rannsóknaraðferða, úrvinnslu gagna og túlkun niðurstaðna. Hún er okkar helsti sérfræðingur um áhrif lyfja og fíkniefna á ökumenn og hefur þannig verið kölluð sem vitni margsinnis ár hvert til að gefa sérfræðiálit í óteljandi dómsmálum. Í gegnum árin hefur hún verið meðhöfundur að nokkrum rannsóknagreinum og hefur kynnt rannsóknir sínar bæði hér heima og erlendis. 

Síðustu ár hefur Kristín verið ein af þremur yfirstjórnendum RLE og tekið á sig ábyrgð á rekstri rannsóknastofunnar. Þá hefur hún tekið þátt í ráðningum starfsfólks til fjölda ára og stuðlað að frábæru vinnuumhverfi sem best sést á löngum starfsaldri flestra sem vinna á RLE.

Undanfarin ár hefur farið fram mikil vinna við að afla RLE vottunar samkvæmt viðeigandi ISO-staðli. Tókst það ferli afskaplega vel og er það ekki síst því að þakka hversu vel hefur verið staðið að öllu verklagi og öguðum vinnubrögðum innan RLE og á Kristín þar stóran hlut að máli.

Kristín lauk störfum fyrir aldurs sakir í lok október síðastliðins og er hún í hópi þeirra sem hafa átt hvað lengstan og farsælastan starfsferil hjá Háskóla Íslands,“ segir í umsögn valnefndar.

Rektor veitir Kristínu Magnúsdóttur viðurkenningu

Upptaka af upplýsingafundi rektors 2. desember 2021, þegar Kristín Magnúsdóttir fékk viðurkenningu.