Háskóli Íslands

Saga RLE

Rannsóknastofa í lyfafræði var stofnuð 1939 og var Kristinn Stefánsson, læknir og kennari við læknadeild (og síðar prófessor) fyrsti forstöðumaður hennar.

Þjónusturannsóknir á sviði réttarefnafræði (ákvarðanir á lyfjum og eiturefnum) hófust árið 1966 í samráði við prófessor í réttarlæknisfræði við læknadeild. Umfang þessarar starfsemi jókst mjög á næstu árum og árið 1974 var formlega stofnuð réttarefnafræðideild við rannsóknastofuna.

Kennsla hefur ætíð verið einn veigamesti þáttur í starfsemi fræðasviðsins. Fastir kennarar læknadeildar í líflyfjafræði (pharmacology) og eiturefnafræði (toxicology) hafa ætíð átt heimahöfn innan rannsóknastofunnar. Lengst af hefur kennsla læknanema verið fyrirferðarmest í kennslunni en einnig hafa kennarar rannsóknastofunnar sinnt kennslu innan tannlæknadeildar og hjúkrunarfræðideildar. Markmið með kennslu í líflyfjafræði (medical pharmacology) er að veita nemum fræðslu um helstu lyf og lyfjaflokka, sem notaðir eru við lækningar. Segja má í hnotskurn, að líflyfjafræði fjalli um það, hvað lyfin gera í líkamanum (lyfhrifafræði) og hvað líkaminn gerir við lyfin (lyfjahvarfafræði).

Vísindarannsóknir innan líflyfjafræði og eiturefnafræði skipa sífellt stærri sess innan RLE. Mikil áhersla er lögð á að fræðasviðið taki þátt í að auka veg vísinda innan háskólans í samræmi við stefnu skólans. Í því sambandi er lögð áhersla á veita verðandi vísindamönnum tækifæri á að taka þátt í rannsóknum í gegnum meistara- og doktorsnám innan skólans. Vísindamenn rannsóknastofunnar birta vísindagreinar í alþjóðlegum vísindatímaritum og taka þannig þátt í að skapa nýja þekkingu í fræðigrein sinni.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is