Háskóli Íslands

Ákvörðun á etanóli í blóði og þvagi

Á Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði (RLE) hefur etanól í blóði verið ákvarðað með gasgreiningu frá því er þær mælingar hófust 1. september 1972. Eins og við er að búast hafa orðið talsverðar breytingar á framkvæmd aðferðarinnar á svo löngum tíma. Bæði hafa kröfur um sérhæfni og nákvæmni aukist og ný og betri tæki verið tekin í notkun. Ekki hafa færri en 5 kynslóðir gasgreina komið við sögu þessara mælinga frá upphafi og auk þess sem annar tækjabúnaður hefur tekið breytingum. Tækjasamstæða sú, sem nú er notuð til mælinga á etanóli í blóði kom í rannsóknastofuna 2005 og var tekin formlega í notkun í október 2005 að undangengnum nauðsynlegum undirbúningsrannsóknum.

Eins og fyrr segir hófust mælingar á etanóli í blóði 1. september 1972. Upphaflegu aðferðinni og þeim tækjabúnaði, sem þá var notaður var  lýst í ritgerð, sem birtist í Tímariti lögfræðinga árið 1975 (3). Við greininguna var notuð fyllt stálsúla, 1 m × 2 mm, og var stöðufasinn Chromosorb 102 (80/100 mesh, Johns-Manville, Inc.). Þynntu blóðsýninu var sprautað handvirkt beint í súluna, án frekari undirbúnings. Þessari aðferð var haldið óbreyttri til ársins 1976. Þá var þróað nýtt afbrigði af aðferðinni, þar sem etanólið var einangrað úr blóðinu með eins konar eimingu og því sprautað í gasformi í súluna (head space analysis). Við þetta varð mælingin bæði nákvæmari og sérhæfari en fyrr. Árið 1978 keyptur nýr gasgreinir, Perkin Elmer, Sigma 4 og leysti hann af hólmi Beckman tækið, sem áður var notað. Enn sem fyrr var innsprautun í tækið handvirk. Árið 1983 var tekinn í notkun sjálfvirkur gasgreinir, Perkin Elmer F-45 Head Space Analyzer, en hann var sérstaklega útbúinn til mælinga á etanóli í blóði. Inn­sprautun í tækið var nú alsjálfvirk og gat tækið unnið úr 30 sýnum í einu án utanaðkomandi aðstoðar. Var nú tekinn upp sá háttur að hvert sýni var mælt þrisvar og var lokaniðurstaðan meðaltal þessara þriggja mælinga. Enn sem fyrr var sami stöðufasinn, Chromosorb 102, notaður í gasgreinisúluna.

Á níunda áratugnum var farið að gera auknar kröfur til sérhæfni þessara mælinga. Var þeim víðast hvar mætt með því að nota a.m.k. tvær gasgreinisúlur með ólíka eðlisefnafræðilega eiginleika til mælinganna. Hvert sýni var þannig mælt á tvær mismunandi súlur. Árið 1989 var því fenginn gasgreinir sömu tegundar og sá fyrri. Í hann var sett stálsúla, 2 m×2 mm, og var stöðu­fasinn í henni 5% Carbopack B, 5% Carbowax 20M. Hvert sýni var nú mælt á bæði tækin og voru gerðar tvær mælingar á annað tækið og ein á hitt. Lokaniðurstaða var sem fyrr meðaltal þriggja mælinga. Þessi tækjabúnaður var notaður óbreyttur til ársins 1997.

Síðla árs 1996 var keyptur nýr gasgreinir af gerðinni Perkin Elmer AS-XL með sjálf­virkum inn­spýti­búnaði Perkin Elmer HS 40XL.  Súlur þær, sem hér eru notaðar eru mjósúlur (capillary columns), 30 m langar og 0,53 mm að innanmáli, framleiddar af Restek Corporation (Bellefonte, PA, Bandaríkjunum) undir nafninu BAC-1 og BAC-2. Stöðufasar þeirra eru með mismunandi eðlisefnafræðilega eignleika og eru sérhannaðir til ákvörðunar á etanóli og skyldum efnum í blóði.  Það tæki sem nú er í notkun er nýrri útgáfa af tækinu frá 1996. Gasgreinirinn heitir Clarus 500 og innspýtibúnaðurinn Turbomax 40. Með þessari tækjasamstæðu er notaður hugbúnaður frá Perkin Elmer, TotalChrom, sem notaður er við úrvinnslu gagnanna.

Aðgreining efna með gasgreiningu byggist á því að mismunandi efni ferðast mishratt eftir súlunum en það er vegna mismunar í samverkun efnanna og stöðufasans í súlunni. Efni, sem sprautað er samtímis inn í súlurnar, koma því á mismunandi tíma út um hinn endann. Logaskynjar skynja hvenær efnin koma út úr súlunni og senda um það rafboð gegnum magnara í tölvuna. Þar vinnur tölvan og hugbúnaðurinn úr rafboðunum, breyta þeim í talnagildi og gasgreiniferla. Þar eð svörun logaskynjaranna er í réttu hlutfalli við magn efnanna, sem koma í gegnum súlurnar er auðvelt að ákvarða magn þeirra. Þegar etanól er mælt í blóði með þessari tækjasamstæðu fást tvær samhliða niðurstöður (x1,1 og x1,2), sín úr hvorri súlu. Úr þessum niðurstöðum er reiknað eitt mæligildi (x1), sem er meðalgildi þessara tveggja mælinga (x1 = ( x1,1 + x1,2)/2). Þar eð hvert blóðsýni er mælt tvisvar (sett tvisvar í tækið) fást aðrar samsvarandi niðurstöður, x2,1 og x2,2 , og samsvarandi meðaltal, x2. Lokaniðurstaða sú, sem gefin er upp á vottorði, er meðaltal þessara tveggja (x1 og x2) að frádregnum vikmörkum.

Öll blóðsýni sem rannsökuð eru á RLE er geymd í allt að eitt ár. Rísi deila um  ákvörðunina má alltaf endurtaka mælinguna innan eins árs og staðfesta þannig fyrri mælingu.  Geymsluþolsrannsóknir á blóðsýnum sýna fram á að gott samræmi er milli tveggja ákvarðana, þ.e. mismunur milli mælinga er innan nákvæmnismarka aðferðarinnar, þótt allt að 11 mánuðir líði milli þeirra.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is